Sunday, January 17, 2010

Fjall þrjú - Grímannsfell



Í gær (laugardag, 16. janúar) gengum við upp Grímannsfell í Mosfellsdal. Það rigndi töluvert á leiðinni upp og við vorum orðnar ansi blautar þegar upp var komið. Það aftraði ekki förinni og gengum við léttar í spori upp á tindinn. Þegar upp á tindinn var komið áttuðum við okkur á að skammt frá var annar tindur líklega ögn hærri. Þangað gengum við rösklega og tókum svo mynd af okkur með Reykjavík í bakgrunni og rigninguna lemjandi á andlitum okkar. Þá áttuðum við okkur á að við vorum ekki komnar á tindinn sem stefnt var á þar sem Stórhóll blasti við í austri. Það var ekki annað að gera en að ganga þangað áður en haldið var niður. Uppgangan tók um 1 1/2 tíma, brattast í fyrstu.

Gangan niður var líka ánægjuleg, Grímannsfell er í raun tvö ólík fjöll - eftir því hvort gengið er upp eða niður. Á miðri niðurleið datt Margréti í hug að fá Dagnýju til að bjóða okkur í heita klessu (betur þekkt sem grillað ostabrauð). Hún tók okkur fagnandi, þrátt fyrir að við værum rennblautar upp fyrir haus. Og fötin okkar fengu svo að snúast nokkra hringi í þurrkaranum á meðan við borðuðum okkur saddar íklæddar æfinga- og náttfötum af Dagný. Dásamlegur dagur.


Hér á eftir eru fróðlegar upplýsingar um Grímannsfell úr bókinni Íslensk fjöll: gönguleiðir á 151 tind eftir Ara Trausta og Pétur Þorleifsson:

Hæð yfir sjávarmáli: 482 m
Göngubyrjun: Í Helgadal (60 m)
Gönguleið: Að hluta grónar skriður og melar.
Uppgöngutími: 1,5 - 2 klst.
Gönguhækkun: 420 m
Göngulengd: 3,5 - 4 km
Leiðarmat: Átakalítil fjallganga á bungumyndað, lúið fjall sem opnar skemmtilega sýn á nágrenni helsta þéttbýlis á landinu.



No comments:

Post a Comment