Saturday, January 30, 2010

Fjall fjögur - Húsfell

2. ágúst 2011


30. janúar 2010



Tveir meðlimir Fjallstindafélagsins (Ágústa og Margrét) gengu upp á Húsfell í dag. Veðrið var ljómandi gott, sólskin og 7 stiga frost. Gangan var nokkuð létt en þó nokkur vegalengd er frá bílastæðum við Kaldársel að fjallsrótum. Þá tók við nokkuð brött en stutt uppganga. Við komum á toppinn eftir tæpra 2 stunda göngu. Þar mynduðum við okkur og landslagið í bak og fyrir, önduðum að okkur fjallalofti og nærðum okkur áður en lagt var af stað niður. Gangan niður var að sama skapi létt en þyngdist þegar nær bílastæðunum dró vegna þess að "strákarnir okkar" voru við það að glopra niður tækifæri til að keppa um gull í EM. Lærdómur þessarar ferða hlýtur að vera sá að hlusta ekki á lýsingar íþróttamóta í fjallgöngum ;)










Sunday, January 17, 2010

Fjall þrjú - Grímannsfell



Í gær (laugardag, 16. janúar) gengum við upp Grímannsfell í Mosfellsdal. Það rigndi töluvert á leiðinni upp og við vorum orðnar ansi blautar þegar upp var komið. Það aftraði ekki förinni og gengum við léttar í spori upp á tindinn. Þegar upp á tindinn var komið áttuðum við okkur á að skammt frá var annar tindur líklega ögn hærri. Þangað gengum við rösklega og tókum svo mynd af okkur með Reykjavík í bakgrunni og rigninguna lemjandi á andlitum okkar. Þá áttuðum við okkur á að við vorum ekki komnar á tindinn sem stefnt var á þar sem Stórhóll blasti við í austri. Það var ekki annað að gera en að ganga þangað áður en haldið var niður. Uppgangan tók um 1 1/2 tíma, brattast í fyrstu.

Gangan niður var líka ánægjuleg, Grímannsfell er í raun tvö ólík fjöll - eftir því hvort gengið er upp eða niður. Á miðri niðurleið datt Margréti í hug að fá Dagnýju til að bjóða okkur í heita klessu (betur þekkt sem grillað ostabrauð). Hún tók okkur fagnandi, þrátt fyrir að við værum rennblautar upp fyrir haus. Og fötin okkar fengu svo að snúast nokkra hringi í þurrkaranum á meðan við borðuðum okkur saddar íklæddar æfinga- og náttfötum af Dagný. Dásamlegur dagur.


Hér á eftir eru fróðlegar upplýsingar um Grímannsfell úr bókinni Íslensk fjöll: gönguleiðir á 151 tind eftir Ara Trausta og Pétur Þorleifsson:

Hæð yfir sjávarmáli: 482 m
Göngubyrjun: Í Helgadal (60 m)
Gönguleið: Að hluta grónar skriður og melar.
Uppgöngutími: 1,5 - 2 klst.
Gönguhækkun: 420 m
Göngulengd: 3,5 - 4 km
Leiðarmat: Átakalítil fjallganga á bungumyndað, lúið fjall sem opnar skemmtilega sýn á nágrenni helsta þéttbýlis á landinu.



Saturday, January 2, 2010

Fjall tvö - Helgafell



Við, Margrét, Ágústa og Hildur, gengum á Helgafell í dag í átta stiga frosti og algerri stillu. Veðrið var ótrúlega fallegt og það var dásamlegt að þramma upp að fjallinu og hlusta á brakið í snjónum. Gangan upp reyndi þægilega á og var góð æfing fyrir komandi tinda. Vorum rétt um klukkutíma frábílastæði upp á topp.

Ferðin var lærdómsrík á marga vegu og næst verðum við allar með nægan vökva með okkur. Engin okkar tók drykkjarbrúsa með en Hildur gleymdi þó ekki súkkulaðinu fyrir toppstoppið. Ágústa og Margrét ætla að tékka á göngustöfum og Hildur ætlar að redda sér góðri treyju til að vera í innan undir lopapeysunni, bómull blífur ekki...

Hér á eftir eru fróðlegar upplýsingar um Helgafell úr bókinni Íslensk fjöll: gönguleiðir á 151 tind eftir Ara Trausta og Pétur Þorleifsson:

Hæð yfir sjávarmáli: 338 m
Göngubyrjun: Við Kaldársel (80 m)
Gönguleið: Hraun og melar, skriða og móbergsklappir; kollur fjallsins er breiður og ávalur.
Uppgöngutími: 1 klst.
Gönguhækkun: 260 m
Göngulengd: 2-3 km
Leiðarmat: Þægileg og skemmtileg, stutt fjallganga með nokkrum bröttum köflum; öllum fær. Gott útsýni miðað við hæð yfir sjávarmáli.

Fjall eitt - Úlfarsfell

Fyrsta fjallið var gengið í hífandi roki á annan í jólum. Við (Margrét, Ágústa og Hildur) gengum upp á topp með vindinn í fangið og kuldann bítandi í kinnar. Hressandi. Þegar upp var komið náðum við frænkur ekki að njóta útsýnisins því það var ekki stætt á toppnum.

Á niðurleið gerðum við stórhuga plön um að ganga saman einu sinni í viku á nýju ári. Alltaf á laugardögum. Annan hvern laugardag ætlum við barnlausar á fjallstinda og hina laugardagana tökum við krakkana með í einhver útivistarævintýri.

Í lok árs 2010 ættum við því að vera búnar að ganga á 26 nýja tinda, litla og stóra.